Gamla skyrgerðin

Við erum stolt af langri sögu Skyrgerðarinnar en húsið hefur leikið stórt hlutverk í bæjarlífinu í Hveragerði. Þar var lengi þinghús bæjarins, auk þess sem gististarfsemi og mjólkurvinnsla var starfrækt þar um áratugabil. Þann 11. júní 2016 hófst rekstur Skyrgerðarinnar á ný og hefur húsið endurheimt sitt gamla hlutverk.
Þinghús og skyrvinnsla
Skyrgerðin var reist af Ölfushreppi árið 1930 og var tilgangurinn tvíþættur; að hýsa þinghús Ölfusinga og skyrgerð Mjólkurbús Ölfusinga.

Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsasmíðameistara ríkisins, sem teiknaði margar af frægustu byggingum landsins eins og Hallgrímskirkju og Þjóðleikhúsið.

Skyrgerðin var sú fyrsta sinnar gerðar hérlendis og var skyr aðalframleiðsluvara Mjólkurbús Ölfusinga. Fyrsta jógúrtin sem var framleidd á Íslandi kom sömuleiðis frá gömlu skyrgerðinni og var seld undir nafninu heilsumjólk.

Enn þann dag í dag framleiðum við skyr upp á gamla mátann og nýtum það bæði í matargerð, bakstur og meira að segja þegar við blöndum drykki á barnum.

Hjarta Hveragerðis
Skyrgerðin hefur frá upphafi verið samkomustaður og menningarmiðstöð fyrir íbúa svæðisins. Síðan um miðja síðustu öld hefur einnig verið rekinn veitingastaður og gistiheimili í húsinu.

Skyrgerðin hefur hýst ótal dansleiki og brúðkaup, þar hafa verið haldnar bíósýningar og fjölmargar veislur og samkomur. Það má því með sanni segja að hún hefur verið samkomuhús Hvergerðinga í áratugi.

Skyrgerðin

Leiðsögn um skyrgerðina
Skyggnstu bak við tjöldin á elstu skyrgerð landsins. Skyrgerðarmeistarinn okkar sýnir gestum hefðbundnar framleiðsluaðferðir við skyrgerð, gömul tæki og tól sem hafa verið notuð í gegnum tíðina og leyfir gestum að bragða á og finna muninn á gamaldags skyri og skyri sem framleitt er í dag.

Lengd: 30-60 mínútur.

Mjólkin sem er notuð við skyrgerðina kemur beint frá búi, nánar til tekið frá bænum Hvammi sem er eina starfandi mjólkurbúið á svæðinu í dag.

Veislusalurinn